Ásgarður er sjálfstætt starfandi grunnskóli með þjónustusamning við Reykhólahrepp. Í stjórn skólans er Kristrún Lind Birgisdóttir skólastjóri, Esther Ösp Valdimarsdóttir skólastjóri, Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson ráðgjafi og Bjarki Viðar Garðarsson fjármálastjóri.
Ásgarður er nýr grunnskóli sem starfar alfarið á netinu eða “í skýjunum” eins og starfsfólk skólans vísar til. Aðdragandi að stofnun Ásgarðs hófst haustið 2017 þegar fræðslustjórinn á Höfn í Hornafirði fór þess á leit við Ásgarð að sinna nokkrum nemendum í fjarkennslu í Hofgarði í Öræfasveit. Bón þessari var vel tekið og vorið 2020 þegar þetta er ritað hafa kennarar í Ásgarði sinnt kennslu í Öræfasveit, Norðurþingi og Reykhólasveit til styttri eða lengri tíma. Fjölda annarra fjarkennsluverkefna hefur einnig verið sinnt af starfsfólki Ásgarðs.
Í janúar 2020 ákvað Kristrún að kominn væri tími til að stofna fullvaxinn skóla “í skýjunum”. Rekstur grunnskóla samræmist ekki beinlínis ráðgjöfinni þó segja megi að skólinn verði mikilvæg fyrirmynd fyrir ráðgjöfina. Eðilegt þykir að skólinn sé sérstök stofnun. Með því að kaupa aðgang að IMYC námskránni fá kennarar Ásgarðs aðgengi að verkefnabanka þar sem búið er að útfæra heildstæða samþættingu námsgreina með áherslu á nemendalýðræði og markvissa þátttöku nemenda. Áherslur aðalnámskrár og IMYC falla vel að hvor annarri.
Með tilkomu Ásgarðs gefst tækifæri til að auðvelda aðgengi barna í dreifbýli að fjölbreyttu námi og jafna betur stöðu þeirra við stöðu barna í þéttbýli í þeim efnum. Hægt er að koma í veg fyrir tíð ferðalög barna til að sækja kennslu og sérfræðiráðgjöf með því að nýta kosti sem Ásgarður býður upp á. Með því að búa til hópa á skjánum og nýta tæknina til þess að færa menntaða kennara og sérfræðinga nær börnunum er hægt að tryggja gæði óháð staðsetningu. Þannig geta foreldrar sem kjósa að búa fjarri skólaþjónustu verið öruggir um að hægt sé að tryggja börnum þeirra skólagöngu.
Sveitarstjórn Reykhólahrepps deilir þeirri skoðun með stofnendum Ásgarðs að mikilvægt sé að jafna stöðu unglinga til gæðanáms óháð búsetu. Fyrsti nemandinn sem stundaði fullt nám í Ásgarði var búsettur í Reykhólahreppi og leiddi sú samvinna til þess að sveitarfélagið var tilbúið að ríða á vaðið og gera þjónustusamning við Ásgarð.
© 2022 Ásgarður AIS ehf
Við erum alltaf á vaktinni, Sendu okkur línu eða skilaboð asgardur@ais.is – 8999063