Nemendur

Starfsáætlun nemenda 

Stundaskrá Ásgarðs er alltaf eins og samanstendur af morgunstund þar sem allir koma saman og farið er yfir verkefni dagsins. Í kjölfarið taka við vinnustundir og teymisfundir með kennurum. Í lok hverrar viku halda nemendur kynningarfund á verkefnum vikunnar og foreldrum er boðið að hlusta á. Í hverri viku tekur umsjónarkennari viðtal við hvern einasta nemenda og aðra hvora viku eru nemendastýrð foreldraviðtöl. Nemendur vinna í teymum sem taka breytingum yfir skólaárið. Nemendum er ekki raðað í bekki. Skóladagar samkvæmt skóladagatali eru 180 dagar.

Stundaskrá 

Lagt er upp með að nemendur hafi lýðræðislega aðkomu að gerð stundaskrár Ásgarðs. Miðað er við 5 klst vinnudag, 5 daga vikunnar þá 180 nemendadaga sem merktir eru á skóladagatali skólans. Eins og sjá má í skólanámskrá og námsvísi er ítarlega haldið utan um nemendastundir og útfærslu á námsgreinum út frá viðmiðunarstundaskrá og valgreinum. Dagurinn hefst klukkan 09.00 en lýkur kl. 15.15. Nemendur geta haft áhrif á stundatöfluna.

Persónumiðað nám 

Kennarar í Ásgarði hafa einsett sér að skara fram úr við útfærslu persónumiðaðs náms. 

  • Lagt er út frá sama þema fyrir alla en viðfangsefnin eru mismunandi eftir áhuga og/eða getu nemenda
  • Nemendur gera áætlanir í samvinnu við kennara og foreldra með markmiðum fyrir hverja námslotu eða tímabil
  • Námsaðferðir eru í samhengi við markmið hvers og eins nemanda sem smám saman fara að þekkja eigin námsstíl
  • Hópaskipting er fjölbreytt og áhersla lögð á samvinnu jafnt sem sjálfstæð vinnubrögð
  • Námsmat er að mestu leyti  einstaklingsmiðað og nemendur er virkir þátttakendur í því
  • Fylgst er vandlega með framförum hvers og eins og brugðist við ef framfarir teljast óeðlilegar.

Skólabragur 

Það er skýr stefna skólans að komið sé fram við alla af virðingu og að allir hafi jafnan rétt á því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Lögð er megináhersla á að allir geri sitt besta og leggi sig fram um að bæta eigið umhverfi sem og líf sitt og annarra. Gengið er út frá því að allir geti fylgt stefnu skólans en stutt er við þá sem þarfnast frekari stuðning við að tileinka sér þátttöku í skólabrag þar sem virðing er höfð að leiðarljósi.

Vaxtarhugarfar og námsmenning leiðsagnarmats  á að einkenna skólabrag Ásgarðsskóla, að skólasamfélagið hafi trú á því að við séum öll stöðugt að bæta okkur með því að takast á við áskoranir.

Með því að nemendum sé mætt þar sem þeir eru staddir og með því að  þeir upplifi traust og hvatningu til að taka taka þátt í skólastarfinu eykur starfsfólkið líkur á því að gagnkvæm virðing og jákvæðni verði einkennandi í samskiptum starfsfólks og nemenda. 

Skóli margbreytileikans

Í Ásgarði eru allir jafnir og nemendur hvorki aðgreindir vegna aldurs, kyns, uppruna eða með nokkrum öðrum hætti. Allir nemendur skólans hafa þarfir og tekið er tillit til þeirra – engar þarfir eru “sér” þarfir – eða allar þarfir eru sérþarfir. Námið er sniðið að þörfum hvers og eins. 

Nemendur vinna í teymum eða sjálfstætt en er ekki er skipt í bekki. Nemendur gera sínar eigin námsáætlanir í samvinnu og samstarfi við kennara sína og foreldra. Viðfangsefnin stjórnast af grunnþáttum og þemum en nánari útfærslur eru alltaf í höndum nemenda.

Það er lykilatriði að allir nemendur bæti sig sem námsmenn og verði í hverju skrefi hæfari til að  bera vaxandi ábyrgð á námi sínu og smám saman skipulagt það af eigin rammleik. Með hverju skrefi nálgast nemandinn hæfni til að hefja nám í framhaldsskóla. Ásgarður er öruggt umhverfi sem gerir nemendum kleift að æfa sig sem sjálfstæðir námsmenn og fá að taka örugg skref út í lífið með viðfangsefnum sem henta hverjum og einum.

%d bloggurum líkar þetta: